Fjölmennt á jólaæfingu

Jólaskákæfing Fjölnis var fjölmenn enda margt í boði fyrir utan taflmennskuna. Fjörutíu Grafravogskrakkar mættu til leiks og tefldu fimm umferða skákmót. Í skákhléi var boðið upp á góðar veitingar og ávaxtadjús. Einbeiting og virðing eru þau tvö orð sem við höfum valið skákæfingunum að undanförnu og þessi tvö orð svínvirka. Eftir jafnt og spennandi skákmót voru allir krakkarnir leystir út með jóla-nammipoka. Þau hjónin og Grafarvogsbúarnir Steini og Vala borgarfulltrúi hafa undanfarin ár séð um jólaglaðning á jólaskákæfingum og hafa sendingar þeirra fallið í kramið hjá okkar áhugasömu skákkrökkum. Glæsilegt skákár er að baki hjá Skákdeild Fjölnis, fjölmennar æfingar og fyrsta sætið á Íslandsmóti félagsliða að loknum fyrri hluta mótsins. Fyrsta skákæfingin á nýju ári verður fimmtudaginn 10. janúar kl. 16:30 í Rimaskóla.


Íslandsmót unglingasveita

Á Íslandsmóti unglingasveita í skák 2018 sem nýverið var haldið í Garðaskóla í Garðabæ kom C sveit Fjölnis skemmtilega á óvart með því að ná bestum árangri allra C sveita á mótinu. Í skáksveitinni eru mjög ungir krakkar sem eiga það sameiginlegt að mæta nær undantekningarlaust á allar skákæfingar Fjölnis á fimmtudögum. Sú yngsta í skáksveitinni heitir Emilía Embla og er aðeins 6 ára gömul. Hún hlaut 5 vinninga í 7 skákum. Í skáksveitinni eru þau Sindri Snær Rimaskóla, Eiríkur Emil Húsaskóla, Emilía Embla Rimaskóla og Jón Emil Vættaskóla.


Ókeypis jólanámskeið

Hin árlega jólagjöf handboltadeildarinnar er klár!

Jólanámskeið deildarinnar hefur slegið í gegn undanfarin ár, enda virkilega vel heppnað í alla staði. Handboltadeildin ætlar því að endurtaka leikinn og standa fyrir glæsilegu námskeiði fyrir iðkendur og byrjendur í handboltaíþróttinni milli jóla og nýárs. Námskeiðið verður alveg ÓKEYPIS og verður það haldið dagana 27. - 28. desember.

Námskeiðið fer fram í Fjölnishöllinni okkar í Egilshöll (nýja íþróttahúsið okkar) á eftirfarandi tímum:

1. og 2. bekkur
27. og 28. desember kl. 09:00-10:15

3. og 4. bekkur
27. og 28. desember kl. 10:30-11:45

Farið verður í grunnþætti íþróttarinnar og leikir og skemmtun höfð að leiðarljósi. Jólatónlist verður spiluð og þjálfarar deildarinnar munu leiðbeina og aðstoða unga iðkendur. Við hlökkum til að sjá ykkur í jólaskapi á þessum tíma!

*Mælst er til þess að iðkendur mæti í íþróttafötum, í íþróttaskóm og með vatnsbrúsa.

Eina sem þarf að gera er að skrá barnið hér á listann og mæta á staðinn! https://goo.gl/forms/UTmCAkSzJng451g12 eða í gegnum NÓRA

Tenging við deildina er hér:

Heimasíða: https://fjolnir.is/handbolti

Facebook: https://www.facebook.com/fjolnirhkd/

Instagram: https://www.instagram.com/fjolnirhkd/

með Fjölniskveðju,
Barna- og unglingaráð hkd. Fjölnis


Íslandsmót 2018

Um helgina var haldið Íslandsmót barna og unglinga ásamt Íslandsmeistaramóti í Egilshöllinni. Mótið var allt hið glæsilegasta. Á laugardeginum hófst keppni hjá keppnisflokkum Chicks og Cubs. Þessir ungu og efnilegu skautarar stóðu sig mjög vel og var öllum keppendum veitt viðurkenning að keppni lokinni. Næst var keppt í flokki Basic Novice.

Mjótt var á milli tveggja efstu þar sem Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir úr SA vann með 26.71 stig, í öðru sæti var Kristín Jökulsdóttir frá SR með 26.43 stig og í þriðja sæti var Rakel Sara Kristinsdóttir úr Fjölni með 20.43 stig. Í Keppnisflokki Intermediate Novice voru það tvær Fjölnisstúlkur sem voru í efstu sætunum þar sem Valdís María Sigurðardóttir var í fyrsta sæti með 24.33 stig, í öðru sæti var Harpa Karin Hermannsdóttir með 24.18 stig og í þriðja sæti var Ólöf Thelma Arnþórsdóttir úr SR með 23.41 stig.

Á laugardeginum lauk einnig keppni í flokknum Intermediate Ladies. Þar stóð Berglind Óðinsdóttir úr Fjölni sem sigurvegari með 36.66 stig, Elísabet Ingibjörg Sævarsdóttir úr SA var í öðru sæti með 34.41 stig og Sólbrún Víkingsdóttir úr Fjölni var í þriðja sæti með 32.19 stig.

Keppendur í flokkum Advanced Novice, Junior og Senior skautuðu stutta prógramið sitt í lok laugardagsins. Þessir keppendur komu svo aftur og kepptu í frjálsa prógraminu á sunnudeginum. Að keppni lokinni var það Ísold Fönn Vilhjálmsdóttir úr SA sem stóð uppi sem Íslandsmeistari í keppnisflokki Advanced Novice með hvorki meira né minna en 106.07 stig samanlagt úr báðum prógrömum, aldeilis frábær árangur hjá henni. Í öðru sæti var Rebekka Rós Ómarsdóttir úr SR með 74.64 stig og Herdís Heiða Jing Guðjohnsen úr SR í þriðja sæti með 74.21 stig. Íslandsmeistari í keppnisflokki Junior var Marta María Jóhannsdóttir úr SA með samanlagt 103.10 stig, í öðru sæti var Aldís Kara Bergsdóttir úr SA með 100.51 stig og í þriðja sæti var Viktoría Lind Björnsdóttir með 91.71 stig.

Íslandsmeistari í keppnisflokki Senior var Margrét Sól Torfadóttir úr SR með samanlagt 102.25 stig og í öðru sæti var Eva Dögg Sæmundsdóttir úr Fjölni með 86.97 stig. Óskum við þeim ásamt öllum keppendum mótsins til hamingju með frammistöðu sína um helgina.


Aðventumót Ármanns

Árlega aðventumót Ármanns var haldið nú um helgina. Á mótinu var keppt í 4., 5., og 6. þrepi í áhaldafimleikum. Mótið var ótrúlega vel heppnað og skemmtilegt og áttu Fjölniskrakkar frábæra keppni.
Við erum stolt af okkar iðkendum og þjálfurum, til hamingju öll.