Skákdeild Fjölnis virðist föst í viðjum vanans og sogast að bronsinu þegar dregur að lokum 1. deildar undanfarin ár. Fjórða árið í röð náði skáksveitin 3. sæti sem gefur rétt á þátttöku á EM skákfélaga í Svartfjallalandi í haust.

A sveitin var í baráttu um Íslandsméistaratitilinn allt Íslandsmótið. Vermdi 1. sætið eftir fyrri hlutann og endaði í því þriðja með 50 vinninga af 72 mögulegum, 3 vinningum minna en sigurliðið.

Sem fyrr býr liðstjórinn við þau forréttindi að geta stólað á sömu átta skákmennina á að tefla allar skákirnar. Þetta gagnast okkar ágætu mótherjum líka. Þeir geta þá stúderað andstæðinginn þegar komið er að því að mæta Fjölni. Ekkert pukur eða óþolandi óvissa þar að hálfu Fjölnis. Eins og áður sagði hefur A sveitin aldrei náð eins góðum árangri og einmitt núna. Eftirspurnin er meiri en framboðið á að tefla í A sveitinni. Þetta á ekki síst við okkar ágætu erlendu félaga sem óðir og uppvægir vilja eyða helgi í hópi Fjölnismanna. Þeir sýna það og sanna með góðri og árangursríkri taflmennsku þegar tækifærið býðst þeim. Vinningshlutfall 70 % er hærra en hægt var að búast við í upphafi móts. Samstaða og liðsandi er hins vegar 100 % frá fyrsta borði til þess áttunda.

Það var ánægjulegur bónus fyrir okkar sveit að Davíð Kjartansson, einn af okkar lykilmönnum, skyldi ná lokaáfanga að IM titli.

Dagur Ragnarsson (21) heldur áfram að sýna gífurlegar framfarir líkt og á öllum mótum vetrarins, framtíðarmaður í hugum okkar íslenskra skákáhugamanna. Svíinn Pontus Carlsson tefldi með Fjölni í öllum umferðum og skilaði 7 vinningum í hús sem er frábær árangur á 2. borði. Davíð, Dagur og Sigurbjörn náðu allir 6,5 vinningum og sá síðastnefndi með 87,5 % árangur í síðari lotunni gegn erfiðari andstæðingum en í þeirri fyrri.

Árangur A sveitar Fjölnis í 1. deildinni og draumsýn okkar um Íslandsbikarinn í Grafarvoginn í nánustu framtíð gæti orðið að veruleika.

B sveit Fjölnis skráði árangur sinn einnig á spjöld Fjölnis “sögunnar”. B sveitin hélt sæti sínu í 2. deild í fyrsta sinn og teflir á næstu leiktíð í þriðja skipti á fjórum árum í deildinni. Með þá Tómas Björnsson, Jón Árna Halldórsson (3/3) og Erling Þorsteinsson á efstu borðum fá uppalin Fjölnisungmenni tækifæri á að tefla við sterka andstæðinga í hverri umferð og kunna eflaust gott að meta. Jóhann Arnar Finnsson yngsti liðsmaður sveitarinnar kom taplaus frá mótinu og fékk 5 vinninga af 7 sem er mjög góður árangur.

C- og ungmennasveit Fjölnis tefldu í 4. deild. Þær eru að mestu skipaðar áhugasömum grunnskólakrökkum úr Grafarvogi. Arnór Gunnlaugsson í 8. bekk Rimaskóla stóð sig adeilis vel. Hann tefldi 6 skákir með C sveit og vann þær allar.

Síðast en ekki síst ber að nefna árangur hinnar 6 ára gömlu Emilíu Emblu B. Berglindardóttur sem tefldi sínar tvær fyrstu skákir á Íslandsmóti skákfélaga og stimplaði sig rækilega inn með öruggum sigri í báðum skákunum. Þessi kornunga Rimaskólastúlka hefur vakið athygli á grunnskólamótum vetrarins fyrir þroskaða taflmennsku og kemur sér upp stöðu “sem hver stórmeistari gæti verið stoltur af” eins og einn af framámönnum í skáklífinu orðaði það eftir að hafa fylgst með stúlkunni ungu.