Um karate


Saga Karate

Núverandi karate er bardagaíþrótt/sjálfsvörn upprunnin á japönsku eyjunni Okinawa.

Eyjan var lengi undir miklum áhrifum kínverja sem höfðu lagt stund á sínar eigin bardagalistir. Angar af þessum listum bárust til eyjunar og blönduðust þar við hinar ýmsu bardagalistir sem stundaðar voru þá þegar og urðu svo til mismunandi staðbundin afbrigði sem kennd voru við sínar borgir eða bæi. Þær mikilvægustu fyrir karate má nefna Shuri, Naha og Tomari. Ef maður bjó í Shuri og stundaði sjálfsvörn var það kallað Shuri – Te o.s.frv.

Kennsla fór hinsvegar mjög leynilega fram og var það ekki fyrr en 1908, þegar karatemeistarinn Anko Itosu skrifaði bréf um karate þar sem hann mælir til dæmis með að karatekennsla fari fram í öllum grunnskólum Japans, sem að hún kom upp á yfirborðið. Almenn skólakennsla varð svo að veruleika síðar. Endurskoða þurfti svo gömlu kennsluaðferðina að kenna einum einstakling í einu og koma í staðinn með hópkennslu sem gerði karate aðgengilegra fyrir fleiri og útbreiðslan hófst.

Karate í dag

Sem keppnisíþrótt er karate skipt í fernt, af WKF (World Karate Federation) viðurkenndum stílum þ.e.a.s. “Shito Ryu”, “Goju Ryu”, “Shotokan” og “Wado Ryu”. Af þessum fjórum stílum eru fyrstu þrír stofnaðir af meisturum frá Okinawa: Kenwa Mabuni, Chojun Miyagi og Gichin Funakoshi. Sá síðasti var stofnaður af Hironori Ohtsuka og er þar með japanskur. Hann er engu að síður náskildur Shotokan.

Hægt er að horfa á karate sem bardagaíþrótt, sjálfsvörn, líkamsrækt og lífsstíl. Þrátt fyrir mismunandi stíla og áherslur er karate iðkun alltaf skipt í þrjá hluta : KIHON, KATA og KUMITE.

KIHON
Kihon eru grunnæfingar þar sem hver tækni fyrir sig er kennd og brotin niður. Iðkandinn æfir spörk, högg og varnir þar til hann nær fullkomnu valdi á hreyfingum og stöðum í karate.

KATA
Kata eru grunnæfingar ofnar saman í bardaga við ímyndaðan andstæðing. Framkvæma þarf fyrirfram ákveðnar hreyfingar í ákveðinni réttri röð, á réttum hraða og með réttum áherslum.  Kata eru mismunandi og mismargar eftir karatestílum. Á heimslista WKF eru Shito Ryu með 43, Goju Ryu 10, Shotokan 21 og Wado Ryu með 10 keppniskata. Að auki eru kenndar byrjendakata í hverjum stíl. Kata er sjálfstæð keppnisgrein í karate.

KUMITE
Kumite er frjáls bardagi á milli tveggja einstaklinga og er önnur tveggja keppnisgreina í karate. Stig eru gefin fyrir högg og spörk sem hæfa andstæðinginn á leyfilegum stöðum og geta keppendur hlotið eitt, tvö eða þrjú stig eftir því hversu erfiðri árásartækni þeir beita. Markmiðið í kumite er að hljóta sem flest stig í viðureign.